Mývatnssveit


Í Mývatnssveit eru íbúar um 450, þar af búa rúmlega 200 í þéttbýlinu Reykjahlíð. Meginatvinna Mývetninga var á árum áður bundin landbúnaði og silungsveiði í Mývatni en á síðari árum hafa orðið verulegar breytingar þar á. Mörg störf eru við raforkuframleiðslu en einnig hefur ferðaþjónusta hefur lengi staðið traustum fótum í Mývatnssveit. Nokkur hótel eru í sveitinni, veitingastaðir, tjaldsvæði og fleiri fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustu. 


Jarðböðin  í Mývatnssveit voru opnuð árið 2004. Þar eru góðir mátunarklefar, gufuböð og heitur pottur. Lónið sjálft hefur mjög græðandi áhrif fyrir fólk með psoriasis og aðra húðkvilla.


Náttúrufegurð við Mývatn er einstök en eldsumbrot hafa mótað landslagið þar frá örófi alda.

Vatnið er eitt stærsta vatn Íslands, 36,5 km2 og er það frægt fyrir fuglalíf sitt. Talið er að á Mývatni haldi sig fleiri andartegundir en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Mývatn dregur nafn af mývargi en hann er tvenns konar, þ.e. bitmý og rykmý. Hætt er við að náttúrufar væri með öðrum hætti ef ekkert mý væri til staðar, þar sem mýið er stór hluti fæðu ýmissa fugla sem og silunga.

Dimmuborgir eru skammt frá Hverfjalli en þær eru sundurtættar hraunborgir með gróðri og kjarri. Í Dimmuborgum gefur að líta hvers konar furðumyndir, gatkletta og smáhella, sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing, opin í báða enda.

Höfði er klettatangi sem gengur út í Mývatn. Útsýni er allgott af Höfðanum yfir Mývatn, voga þess og víkur og er kjörinn staður til fuglaskoðunar. Kálfastrandarvogur liggur meðfram Höfðanum og er sérstæður fyrir hraundrangamyndanir í voginum og við hann. Þessir drangar heita Klasar og Kálfastrandarstrípar en Kálfastrandarvogur og umhverfi Höfða þykir með fegurstu stöðum við Mývatn.

Skútustaðagígar eru gervigígar sem hafa myndast við gufusprengingu þegar hraun hefur runnið yfir votlendi.

Gígarnir eru vinsæll staður til fuglaskoðunar og eru þeir friðlýstir sem náttúruvætti. 

Námafjall er háhitasvæði og er hitastigið yfir 200°C á 1000 metra dýpi. Hér eru tvennskonar hverir, gufuhverir og leirhverir. Á háhitasvæðinu er jarðvegurinn ófrjór og gróðurlaus en vegna áhrifa hveraloftsins er hann mjög súr. Talsverð brennisteinsútfelling er frá hverunum og var verulegt brennisteinsnám við Námafjall fyrr á öldum. Auðguðust eigendur Reykjahlíðar mjög á sölu brennisteins á miðöldum en hann var notaður í púðurgerð. Jarðhitasvæðið var eins og Skútustaðahreppur allur, friðlýst árið 1974. Ástæða er til að vara fólk við ótraustum jarðvegi og háum hita (80-120°C). 

Í 
Leirhnjúki hafa tvisvar sinnum á síðustu öldum orðið mikil eldsumbrot. Mývatnseldar 1724-1729 og í síðara skiptið svokallaðir Kröflueldar sem hófust 1975. Í Leirhnjúki má sum staðar ennþá finna hitann í 15 ára gömlu hrauninu en þar eru jafnframt miklar brennisteinsnámur og litadýrð víðast hvar mikil.

Gígurinn 
Víti eða Helvíti eins og hann heitir fullu nafni er um 300 m í þvermál. Gígurinn varð til við ofsalega gossprengingu árið 1724. Með henni hófust Mývatnseldar sem stóðu meira og minna samfellt í fimm ár og er það lengsta gos í gossögu Íslands sem um er vitað. Í meira en heila öld eftir gosið, sauð heitur leirgrautur í Víti en nú er það löngu kólnað. 

Í 
Hverfjalli er stór, hringlaga sprengigígur, um 140 m djúpur og um 1000 m í þvermál. Hverfjall er í röð fegurstu og reglubundnustu sprengigígamyndana sem getur að líta á Íslandi og talið í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Telja má víst að gígurinn sé myndaður við sprengigos og er aldur þess áætlaður 2500 ár.

Grjótagjá var eftirsóttur baðstaður á árum áður en við jarðhræringarnar á þessum slóðum á árunum 1975-1984 hækkaði hitastig vatnsins svo mjög að ekki hefur verið hægt að baða sig þar síðan. 

Fjallið
 Herðubreið sem gjarnan gengur undir nafninu drottning íslenskra fjalla. Herðubreið er móbergsstapi og rís 1000-1100 m yfir hraunbreiðuna í kring, snarbrött og kringd hamrabelti hið efra. Fjallið er svo reglulegt, hreint í línum og fagurskapað að vart finnst líki þess í íslenskri fjallagerð. Við rætur Herðubreiðar eru Herðubreiðarlindir, gróðurvin við rönd Ódáðahrauns en þar koma margar lindir fram undan hraunröndinni og sameinast, víða með fossbunum. Herðubreiðarlindir eru af mörgum taldar einn fegursti bletturinn á öræfum landsins, einkum þó vegna útsýnis og andstæðna náttúrunnar sem þar koma fram. Herðubreið og nágrenni hennar var friðlýst árið 1974.

Askja er sigdæld mikil, sporöskjulaga og í því er Öskjuvatn sem er dýpsta stöðuvatn Íslands eða 217 m þar sem það er dýpst. Margar og miklar eldstöðvar eru í Öskju. Mestur er gígurinn Víti sem spjó ösku og vikri árið 1875. Vatnið í gígnum er enn um 22 gráðu heitt og er vinsælt að baða sig í því. Öllum sem koma í Öskju verður hún ógleymanleg. Mikilleiki náttúrunnar og smæð mannsins birtast þar óvenju skýrt. Pálmi Hannesson fyrrum rektor í MR sagði: "Ég hef það fyrir satt, að Askja sé furðulegasti staðurinn á þessu furðulega landi. Og ég þykist vita, að á allri jörðinni séu fáir staðir jafn stórbrotnir og ægilegir og hún, og ég veit, að hver sá, sem eitt sinn hefur hana augum litið, gleymir henni aldrei meir."

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum er þekktur fyrir sína rómuðu fegurð og náttúruundur. Þrír fossar eru í Jökulsárgljúfrum, Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss en Dettifoss er aflmesti foss í Evrópu, 44 m hár og 100 m breiður.

Ásbyrgi er stórbrotið náttúrufyrirbæri með um 90-100 m háum hamraveggjum. Þar er tjörn, Botnstjörn með gróskumiklum gróðri allt í kring. Mikill birkiskógur er um innanvert Ásbyrgi og er hann friðaður af Skógrækt ríkisins. Ýmsar tilgátur hafa verið uppi um myndun Ásbyrgis en nú er talið fullvíst að það hafi orðið til við tvö hamfarahlaup í Jökulsá, hið fyrra fyrir 8-10 þúsund árum en síðara hlaupið hafi orðið fyrir tæpum þrjú þúsund árum. Jökulsá breytti þá um farveg og hefur síðan runnið um núverandi farveg.
Þjóðsagan segir að Ásbyrgi sé hóffar eftir Sleipni, hest Óðins og sé eyjan far eftir hóftunguna.

Í hinum gróskumiklu Hólmatungum eru margar fagrar stuðlabergsmyndanir. Það er á margra orði að hvergi sé fegurra göngusvæði á landinu en á milli Hljóðakletta og Hólmatungna meðfram Jökulsá á Fjöllum. Óteljandi lindir spretta upp í Hólmatungum og vatnið fellur stall af stalli niður í Jöklu. Á gönguleiðinni, rétt sunnan Tungnanna, er svokallaður Gloppuhellir í Gloppu, sem er sérstök náttúrusmíð.

Hljóðaklettar eru sérkennileg og skoðunarverð klettaþyrping. Hljóðaklettar eru leifar af eldstöðvum og hefur Jökulsá á Fjöllum eytt gjallgígnum svo að þar standa eftir fallega stuðlaðir bergstandar. Þarna eru hellar og skútar og kynjamyndaðir stuðlaklettar þar sem stuðlarnir liggja á ýmsa vegu.

Húsavík er einn þekktasti bær landsins fyrir hvalaskoðun, þar liggja fyrir á Hvalasafninu miklar og greinargóðar upplýsingar um hvali og hvalveiðar við Ísland.



Share by: